|
 |
 |
|
25.8.2011 |
 |
Drekaflugur tilheyra ættbálki vogvængja (Odonata) sem eru stór hraðfleyg skordýr með stór augu, stutta fálmara, samanrekinn frambol og langan grannan afturbol. Á frambolnum sitja sterklegir fæturnir og tvö pör stórra vængja með þéttriðið æðanet. Eitt af einkennum drekaflugna er að þær halda vængjunum lárétt út frá bolnum í hvíld.
Gyðlurnar (ungviðið) lifa í vatni. Þær eru rándýr og veiða smærri dýr sér til matar. Fullorðnu dýrin eru einnig rándýr og fanga bráð sína á flugi. Flughæfni drekaflugna er mikil í samanburði við önnur skordýr. Þær geta flogið beint áfram, afturábak, lóðrétt upp og niður og til hliðanna.
Drekaflugur eru sjaldséðir flækingar á Íslandi. Öðru hverju berast þær með varningi frá útlöndum, en einnig eru dæmi um að tegundin Hemianax ephippiger hafi borist með vindum frá N-Afríku. Drekaflugan á Kambsveginum hefur sennilega borist til landsins með skipi sem lagðist að í Sundahöfn og þaðan farið á flakk í blíðviðrinu.
Á þessari síðu er að finna margar myndir af þessum glæsilegu skordýrum.
|
 |
|